Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 288/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 288/2021

Miðvikudaginn 25. ágúst 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. júní 2021 að synja umsókn hennar um greiðslu barnalífeyris vegna náms.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 9. júní 2021, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris vegna náms. Með bréfi, dags. 11. júní 2021, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að greiða barnalífeyri vegna náms eftir 20 ára aldur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. júní 2021. Með bréfi, dags. 14. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 22. júní 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að það sé erfitt að skilja ákvörðun Tryggingastofnunar vegna þess að kærandi eigi rétt á barnalífeyri vegna náms til 20 ára aldurs. Kærandi hafi orðið 20 ára í nóvember 2020 og verði ekki 21 árs fyrr en í nóvember 2021. Í bréfi Tryggingastofnunar segi: „Verður að læra á fullu“ en kærandi þurfi að vera í fjarnámi þar sem hún hafi nýlega eignast barn. Einnig liggi fyrir að vottorð frá ráðgjafa.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á greiðslu barnalífeyris vegna náms til kæranda þar sem einungis sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna náms til ungmenna á aldrinum 18 til 20 ára.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar séu látnir, enn fremur ef foreldrar séu ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.

Þá segi í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að einnig skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga þessara.

Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, segi að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Bætur falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti ljúki.

Kærandi hafi sótt um barnalífeyri vegna náms með umsókn 9. júní 2021 ásamt tveimur skólavottorðum frá B sem staðfesta að kærandi hafi verið í námi við skólann á vorönn 2021 og væri skráð í nám á sumarönn 2021.

Þar sem skýrt sé kveðið á um í 3. gr. laga um félagslega aðstoð að barnalífeyri vegna náms skuli greiða ungmennum á aldrinum 18-20 ára og falli réttur ungmenna samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma sem 20 ára aldri sé náð, sbr. og 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi hafi orðið 20 ára í nóvember 2020 en innsend skólavottorð sýni einungis nám á þessu ári. Þar sem einungis sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna náms fram að þeim tíma sem ungmenni verði 20 ára sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda barnalífeyri vegna náms sem hún stundi árið 2021.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. júní 2021, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms var synjað vegna þess hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslna þar sem að hún var orðin 20 ára. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða barnalífeyri eftir 20 ára aldur.

Um barnalífeyri vegna menntunar er fjallað í 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. málsl. 3. gr. laganna er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir eru látnir og enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.

Byggt er á því í kæru að kærandi verði ekki 21 árs fyrr en í nóvember 2021 og fyrir liggur að kærandi hefur stundað fjarnám frá vorönn 2020 og er skráð í fjarnám sumarið 2021. Úrskurðarnefndin telur ljóst af orðlagi 3. gr. laga um félagslega aðstoð að ekki sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna náms eftir að einstaklingur nær 20 ára aldri. Sú túlkun er jafnframt í samræmi við 1. mgr. 62. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem fram kemur að heimilt sé að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt kröfu þess frá 18 ára aldri og allt til þess að það nær 20 ára aldri. Að mati úrskurðarnefndar var Tryggingastofnun ríkisins því ekki heimilt að samþykkja umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. júní 2021, um synjun á umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um greiðslu barnalífeyris vegna náms, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum